Stöðug þróun og ábyrg uppbygging
Hér getur þú skyggnst inn í framtíð Keflavíkurflugvallar og fylgst með hvernig hann þróast
Keflavíkurflugvöllur þróast með landi og þjóð
Flugstöð Leifs Eiríkssonar opnuð
Flugstöð Leifs Eiríkssonar opnaði árið 1987 og var þá 23 þúsund fermetrar. Sumum þótti það of mikið.
Árið 1987 urðu þáttaskil í flugsögu Íslands. Þá var frumvarp samþykkt á Alþingi sem tryggði nær fjórfalt fjármagn til flugsamgangna á Íslandi. Þar með hófst markviss uppbygging og endurbætur í þágu flugsamgangna, en árið áður fengu Íslendingar herflugvelli bandamanna í Reykjavík og Keflavík afhenta til eignar.
Reykingar bannaðar í alþjóðaflugi
Hér á árum áður fór fólk ekki í millilandaflug nema fá sér í glas, og var reykt um borð í flestum flugvélum.
Þegar leið á 9. áratuginn fóru flugfélög eitt af öðru að banna reykingar um borð í flugvélum sínum. Árið 1996 beindi Alþjóðaflugmálastofnunin þeim tilmælum til flugfélaga að reykingar yrðu bannaðar í öllu farþegaflugi í heiminum.
Suðurbygging tekin í notkun
Um miðjan 10. áratuginn var afkastageta flugstöðvarinnar komin að þolmörkum. Þessi aukna þörf fyrir stækkun skrifaðist að miklu leyti á fulla aðild Íslands að Schengen samstarfinu, sem gerði kröfu um fullan aðskilnað farþega innan og utan svæðisins.
Suðurbyggingin, 17 þúsund fermetra viðbygging til suðurs, var því tekin í notkun þann 25. mars 2001 og heildarstærð flugstöðvarinnar orðin um 40 þúsund fermetrar.
Stækkun Norðurbyggingar til austurs og vesturs
Á árunum 2003 – 2004 fjölgaði farþegum á Keflavíkurflugvelli meira en almennt gerðist á flugvöllum austanhafs og vestan.
Til að bregðast við þessu var fyrsta skrefið að stækka innritunar- og móttökusali um 2 þúsund fermetra, og voru þessir salir teknir í notkun árið 2004.
Nýir sjálfsafgreiðslukassar
Í maí 2006 voru teknar í notkun sex sjálfsafgreiðslustöðvar fyrir innritun farþega. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og eru nú sjálfsafgreiðslukassar kunnugleg sjón á flestum flugvöllum um heim allan, þar á meðal á Keflavíkurflugvelli.
Flugstöðin opnuð formlega að nýju eftir stækkun
Á 20 ára afmæli flugstöðvarinnar, í apríl 2007, opnaði Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi utanríkisráðherra, nýja 14 þúsund fermetra Suðurbyggingu formlega eftir framkvæmdir sem höfðu staðið yfir í fjögur ár á undan. Eftir þessar endurbætur var flugstöðin orðin 56 þúsund fermetrar.
Með þessari viðbyggingu töldu sérverslanir flugstöðvarinnar tíu, fríhafnarverslanir þrjár, og veitinga- og kaffihús ótalmörg.
Eldgos í Eyjafjallajökli
Vorið 2010 hófst eldgos í Eyjafjallajökli sem setti Ísland rækilega á heimskortið þegar það bakaði ferðalöngum víða um heim vandræði. Gosið stóð í rúman mánuð og öskuskýið sem myndaðist gerði það að verkum að loka þurfti loftrými yfir Norður-Atlantshafi ásamt mörgum löndum Evrópu í fimm sólarhringa.
Á sama tíma var umfjöllunin um gosið gríðarleg og á árunum eftir fjölgaði ferðamönnum á methraða sem gerði það að verkum að ferðaþjónustan varð einn af mikilvægustu máttarstólpum íslensks hagkerfis.
Stækkun Suðurbyggingar hefst
Viðamiklar framkvæmdir á flugstöðinni hófust árið 2013 með það markmið að auka afköst og stytta biðtíma farþega. Sumarið 2014 var byrjað á stækkun Suðurbyggingar flugstöðvarinnar um samtals 5.000 fermetra til vesturs. Um haustið sama ár efndi Isavia til alþjóðlegrar hönnunarsamkeppni um mótun þróunaráætlunar fyrir Keflavíkurflugvöll til næstu 25 ára.
Keflavíkurflugvöllur ratar á lista yfir bestu flugvelli heims
Árið 2014 rataði Keflavíkurflugvöllur á heiðurslista yfir bestu flugvelli heims. Á meðfylgjandi mynd má sjá starfsfólk flugvallarins fagna áfanganum með gríðarstórri tertu.
Fjarstæði til austurs byggð
Á árunum 2015 - 2018 stóðu yfir ýmsar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli. Fjarstæði til austurs af flugstöðinni voru byggð auk þess sem ný settjörn var byggð til hreinsunar á ofanvatni af flughlaði.
Megintilgangur settjarna á Keflavíkurflugvelli er að safna vatni, tefja það á leið sinni og hreinsa það. Hreinsunin er á þann veg að mengandi efni fljóta upp, falla til botns eða síast í gegnum jarðveg.
Stækkun Suðurbyggingar til norðurs
Árið 2016 hófust framkvæmdir á stækkun Suðurbyggingar til norðurs en tveimur árum áður hafði hafist stækkun á byggingunni til vesturs.
Þetta fól meðal annars í sér stækkun á landamærasal, mun stærra biðsvæði og aukna fjölbreytni í verslunar- og veitingasvæði á 1. hæð.
Stækkuð Suðurbygging vígð
Það var svo í mars árið 2018 sem stækkuð Suðurbygging var vígð. Stækkunin nam 7000 fermetrum og hafði nýja svæðið verið tekið í notkun í áföngum.
Framkvæmdir við nýja akbraut
Framkvæmdir við nýja akbraut sem ber heitið Mike voru langt komnar árið 2022 og opnaði nýja akbrautin sumarið 2023. Akbrautin er 1200 metra löng og 35 metrar á breidd og tengir saman flughlað flugstöðvarinnar og flugbraut.
Stækkun Suðurbyggingar til austurs
Nú er unnið að stækkun Suðurbyggingar á Keflavíkurflugvelli. Það verk mun skila meðal annars bættri aðstöðu farþega við brottfararhlið í austurenda Suðurbyggingar, aukna fjölbreyttni í verslun og veitingum og stærra biðrými fyrir farþega.
Framkvæmdir hefjast árið 2023 og stendur til að ljúka þeim árið 2024.
Nýr töskusalur
Nýr töskusalur var tekinn í notkun á Keflavíkurflugvelli sumarið 2023 í nýrri viðbyggingu við flugstöðina, svokallaðri austurálmu. Í honum eru þrjú stærri og breiðari farangursmóttökubönd, en gert er ráð fyrir að síðar geti tvö bönd bæst við.
Áframhaldandi framkvæmdir við Austurálmu
Árið 2023 opnaði nýr og glæsilegur töskusalur í Austurálmu. Á fyrstu mánuðum ársins 2024 hófust áframhaldandi framkvæmdir á annarri hæð álmunnar.
Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar
Þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar er framtíðarsýn um hvernig flugvöllurinn getur þróast til framtíðar í takti við farþegafjölda og þarfir samfélagsins. Þróunaráætlunin er gerð til 25 ára í senn á grundvelli langtímaspár um þróun á farþegafjölda og er áætlunin tekin til endurskoðunar og uppfærð á fimm ára fresti.
Hvað felur KEF+ í sér?
Stöðuga þróun
KEF+ er hreyfiafl verkefna Isavia sem tengjast uppbyggingu flugvallarins. Með KEF+ tryggir Isavia að Keflavíkurflugvöllur sinni ávallt sínu hlutverki, gagnvart farþegum, sem og íslensku þjóðinni – í dag, sem og á morgun.
Tímabær uppbygging
Frá árinu 2009 hefur fjölgun farþega líkst veldisvexti, og flugstöðin því komin að þolmörkum. KEF+ felur í sér uppbyggingu sem annar eftirspurn framtíðarinnar á ábyrgan og skynsaman hátt.
Sjálfbærni borgar sig
Sjálfbærni býr í hjarta allra ákvarðana KEF+. Öll hönnun framkvæmda tekur mið af stóru myndinni og er skipulögð svo að sem minnst fari til spillist. Þannig sparast tími, peningur, vinna og svo ekki sé minnst á ávinning umhverfisins.
70% stækkun
Fram til ársins 2030 er gert ráð fyrir að flugstöð Keflavíkurflugvallar stækki um 70% eða 52 þúsund fermetra. Til samanburðar er Kringlan um 41 þúsund fermetrar.